Margt líkt með skyldum

„Í áfangaskýrslu verði úttekt á eignum ríkissjóðs og annarra ríkisaðila, þar á meðal jörðum og öðrum fasteignum og beinum og óbeinum eignarhlutum í fyrirtækjum, hvort sem er í formi hluta- eða stofnfjár eða með öðrum hætti. Sérstaklega verði tilgreind fyrirtæki sem eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu ríkissjóðs eða annarra ríkisaðila.“
Tillaga til þingsályktunar um stórfellda einkavæðingu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur uppi áform um mikla einkavæðingu opinberra eigna – aftur. Þingmenn flokksins hafa lagt fram þingmál sem ætlað er að ýta af stað einkavæðingu á öllum fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins með beinum eða óbeinum hætti. Yfirvarpið er það sama og í fyrri einkavæðingum – að greiða niður skuldir og byggja upp innviði landsins. Allt þekktar stærðir frá fyrri tíð.
Það er meirihluti á Alþingi fyrir því að einkavæða sameiginlegar eignir okkar. Það þarf ekki að efast um hug sjálfstæðismanna hvað þetta varðar og enn síður þingmanna Viðreisnar, enda margt líkt með skyldum.
SA kynntu í ársbyrjun 2016 áherslur sínar fyrir árið undir heitinu „Hvert skal haldið“. Samkvæmt því sem þar má sjá, falla áform stjórnvalda nú um stórfellda einkavæðingu eins og flís við rass við framtíðarsýn SA. Meðal þeirra sem unnu að og skrifuðu undir áherslur SA er að finna tvo ráðherra í ríkisstjórn sjálfstæðisflokksins, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þorstein Víglundsson.
Það er ekki ofsögum sagt að Viðreisn sé lítið annað en pólitískur armur Samtaka atvinnulífsins.