Stenst ekki skoðun

 „Stefnt er að því að allar varanlegar útgjaldaákvarðanir rúmist innan hagsveiflunnar.“
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar sjálfstæðisflokksins.

Formenn stjórnarflokkanna leggja mikið upp úr því að telja almenningi trú um að til standi að setja mikla fjármuni í heilbrigðiskerfið á kjörtímabilinu, auk þess að hefja mikla uppbyggingu á öðrum innviðum samfélagsins s.s. velferðarkerfinu og ráðast í miklar samgönguframkvæmdir, svo dæmi séu tekin. Jafnframt segjast þeir ætla að gæta ýtrasta aðhalds í rekstri ríkissjóðs og greiða niður skuldir þannig að hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar eftir tíu ár. Samanlagt eru formennirnir að tala um útgjöld upp á tugi milljarða, sennilega ekki langt frá 100 milljörðum árlega næstu árin.
Þetta stenst því miður ekki skoðun og ástæðan er einföld. Það stendur ekki til af hálfu ríkisstjórnarinnar að afla tekna til að setja í heilbrigðiskerfið, fjármagna velferðarkerfið, byggja vegi eða greiða niður skuldir.
Samkvæmt stefnuyfirlýsingunni eiga öll varanleg útgjöld að rúmast innan hugsanlegrar hagsveiflu. Engar nýjar tekjur. Engir tryggir tekjustofnar. Ef spár um fjölgun ferðamanna ganga ekki eftir, ef loðnuvertíðin bregst, ef verð á sjávarafurðum lækkar, ef hagsveiflan verður ekki næg – verða engir peningar settir í heilbrigðis-, velferðar- eða menntakerfið.
Formenn stjórnarflokkanna ætla að gambla, veðja á einskiptistekjur, óreglulegar tekjur sem kannski koma en kannski ekki. Velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfið er lagt undir.
Svo einfalt er það.