Íkorninn hefur skýr markmið

Það hefur oft betri áhrif að sýna mýkt og sveigjanleika en að ryðjast áfram af krafti og með látum. Við fyrstu sýn er bjarndýrið tignarlegt, vöðvastælt og kraftmikið dýr en það kemst ekki á efstu toppa trésins. Við fyrstu sýn virðist íkorninn hlaupa stefnulaust fram og til baka eins og vitstola einfeldningur en það er ekki heldur svo einfalt. Íkorninn hefur skýr markmið, hann er að safna forða fyrir veturinn og öll hans taugaveiklunarlega iðja þjónar því markmiði.“
Óttar Proppé formaður Bjartrar framtíðar

Fyrir tveimur mánuðum skrifaði ég þennan pistil sem fékk mikinn lestur. Það verður ekki af Óttari Proppé tekið að hann hefur spilað vel úr þeim spilum sem kjósendur gáfu honum í haust. Hann er nú að verða ráðherra við annan mann úr fjögurra manna þingflokki Bjartrar framtíðar. Til þess að svo yrði hefur flokkurinn að vísu mátt gefa eftir öll sín stærstu mál en um leið gefið Bjartri framtíð tækifæri á framhaldslífi í krafti ráðherraembætta. Óttar sagði í fjölmiðlum í gær að hann hafi unnið skipulega að þessu markmiði allt frá kjördegi og því ljóst að viðræður hans og Bjartrar framtíðar við aðra flokka voru aldrei annað en smávægilegir hnökrar á leiðinni að markmiðinu.
Björt framtíð er komin til áhrifa langt umfram fylgi. Það geta flokksmenn fyrst og síðast þakkað formanninum sem hefur af mikilli yfirvegun með skýr markmið tiplað á trjátoppunum alla leið í mark.
Það er ekki annað hægt en að dást að því.