Valtað yfir þingið

Sjaldan, ef nokkru sinni, hefur hópur fólks farið í jólafrí jafn ánægt með sjálft sig og þingmenn gerðu fyrir þessi jól - af jafn litlu tilefni. Ég ætla þó alls ekki að efast um að þingmenn hafi verið duglegir að sinna þeim verkum sem ríkisstjórnin fól þeim. Vinnubrögð þingsins við afgreiðslu stórra mála voru hins vegar ekki til eftirbreytni og verða vonandi aldrei aftur með þeim hætti.
Opinber umræða í þingsal um fjárlagafrumvarp næsta árs, stærsta mál hvers þings, tók aðeins rétt rúmar 11 klukkustundir, allar þrjár umræður málsins samanborið við ríflega 100 tíma umræðu fyrir ári um fjárlagafrumvarp yfirstandandi árs. Fjárlaganefnd hélt nokkra fundi um málið og tók á móti færri gestum og umsögnum en nokkru sinni enda tíminn af skornum skammti. Fjárlög 2017 voru á endanum samþykkt af minnihluta þingsins nánast óbreytt eða með um 1,5% breytingum á útgjaldahlið frumvarpsins sem er líkt og vant er. Það vantað þó ekkert upp á að fjárlaganefndarfólk væri ánægt með sig. Ánægja þeirra breytir þó engu um að það þarf eftir sem áður að skera niður í grunnrekstri samfélagsins.
Stjórnarandstöðuflokkarnir sem fyrir ári sameinuðust um breytingartillögur við fjárlagafrumvarp 2016 komu nú sundraðir hver með sitt álit á meðan stjórnarflokkarnir stóðu saman um frumvarpið sitt – skiljanlega.
Opinber umræða í þingsal um jöfnun lífeyrisréttinda tók aðeins 4 klukkutíma og 18 mínútur, allar þjár umræðurnar. Innan við sólarhring síðar hafði eitt af stóru stéttarfélögum opinberra starfsmanna ákveðið að kæra ríkið vegna lagasetningarinnar, enda munu réttindi félagsmanna skerðast í kjölfar samþykktar þingsins.
Opinber umræða í þingsal um tekjuöflunarfrumvörp næsta árs  stóð aðeins yfir í 3 tíma og 49 mínútur, allar þrjár umræðurnar. Engin pólitísk umræða fór fram um tekjuöflun ríkisins og mikill meirihluti þingsins lagðist gegn tillögum um auknar tekjur og breytingar á skattkerfinu.
Opinber umræða um fjáraukalagafrumvarp ársins tók aðeins  2 tíma og 43 mínútur, umræða um málefni fatlaðs fólks tók 3 mínútur og frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á kjararáði tók aðeins 3 tíma og 24 mínútur svo dæmi séu tekin. Þetta á við um allar þrjár umræður þessara mála.
Einu þingmálin sem þingið afgreiddi á þessum dögum komu frá ríkisstjórninni eða að hennar frumkvæði. Þau fóru öll í gegn nánast fyrirstöðulaust og án teljandi breytinga. Ríkisstjórnin valtaði því yfir þingið sem stimplaði hvert málið af öðru út fyrir hennar hönd.
Þetta mátti m.a. lesa úr viðtali við formenn Vinstri grænna og framsóknar þegar fárið stóð sem hæst. Formaður framsóknarflokksins var reyndar þakklátur þinginu fyrir að afgreiða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar sinnar en benti um leið á að hann væri ekki mjög hress með vinnulag þingsins sem hann kallaði áhugaverða tilraun í þroskasögu þess og efaðist jafnframt um að það væri gott til eftirbreytni. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, benti á hið augljósa sem virðist hafa farið fram hjá svo mörgum að engin pólitísk umræða eða stefnumótun hefði farið fram um þessi stóru mál, henni hefði hreinlega verið skotið á frest. Hún vísaði sömuleiðis til þess að þingið hefði ekki heldur á þessum dögum leyst nein mál til frambúðar. Allt satt og rétt hjá þessum tveimur jarðbundnu formönnum sem eru öðrum líklegri til að verða kjölfesta í íslenskum stjórnmálum á næstunni.
Ekki veitir af ef þingið á að rísa undir nafni.

Mynd: Eggert Jóhannesson