Hvað er eiginlega að þessum þingmanni?

„Sjúkrahúsin á svæðinu eru alltaf opin fyrir því að taka á móti sjúklingum LHS en núna er það mikilvægara að hafa þá á göngum svo sjónvarpsmyndavélarnar og fréttamennirnir geti flutt ljótar sögur úr heilbrigðiskerfinu.“ Ásmundur Friðriksson, þingmaður sjáflstæðisflokksins.

Ég átti þess kost að fylgjast í nokkra klukkutíma með starfsemi á bráðamóttöku Landspítalans í síðustu viku. Allir vísar voru á rauðu, fjöldi sjúklinga í hámarki, öll rými full, sjúklingar á göngum, hvergi pláss fyrir þá sem þurftu að komast af bráðadeildinni á sjúkrahús o.s.frv. Ég sá sjúklinga í aðstæðum sem þeir eiga ekki að vera í, starfsfólk sem vann á hlaupum við erfiðar aðstæður og talaði við aðstandendur sem voru bæði undrandi og reiðir yfir stöðunni. Það voru engar sjónvarpsvélar eða fréttamenn á svæðinu til að segja frá því sem fyrir augu og eyru bar. Þetta var aðeins venjulegur annasamur dagur í vinnunni hjá starfsfólki bráðamóttökunnar. Ég var þarna bara í nokkra tíma.
Þingmaður sjálfstæðisflokksins sakar starfsfólk Landspítalans beinlínis um mannvonsku með því að vista sjúklinga að óþörfu á göngum spítalans. Hann heldur því blákalt fram að stjórnendur, læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk Landspítalans bæti hreinlega í erfiðleika sjúklinga í þeim tilgangi að geta sýnt þá í fjölmiðlum við vondar aðstæður.
Hvað er eiginlega að þessum þingmanni?