Þingið þarf að hafa vit fyrir ríkisstjórninni

Nýsamþykkt samgönguáætlun er ófjármögnuð samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar sjálfstæðisflokks og framsóknar. Það þýðir að verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt verður ekki ráðist í nauðsynlegar samgöngubætur í landinu. Meðal þeirra stóru verkefna sem ríkisstjórnin vill slá af eru upphaf framkvæmda við Dýrafjarðargöng eins og komið hefur fram í fréttum. Það hefur minna verið rætt um Dettifossveg frá fossi og norður sem er afar brýn og nauðsynleg framkvæmd fyrir atvinnulífið á Norðurlandi. Vilji sjálfstæðis- og framsóknarmanna stendur til þess að slá þá framkvæmd af þrátt fyrir sver loforð um annað fyrir kosningar .
Ríkisstjórn vinstriflokkanna sá til þess eftir Hrun að lokið var við nýjan uppbyggðan veg af þjóðvegi eitt að Dettifossi. Sú framkvæmd hefur ekki nema hálft gildi ef ekki verður lokið við hana og vegurinn kláraður til enda. Norðurland er mesta vaxtarsvæði ferðaþjónustunnar á næstu árum svo framarlega sem samgöngumálum og innviðum sé sinnt sómasamlega. Það yrði áfall fyrir atvinnuuppbyggingu í ferðaþjónustu á Norðurlandi ef Alþingi færi að vilja ríkisstjórnarinnar og hætti við Dettifossveg. Það verður að treysta á að þingið hafi vit fyrir stjórninni í þessu sem öðru.
Best væri samt auðvitað að fá nýja ríkisstjórn.