Undir yfirborðið

Magnús Halldórsson, ritstjóri Kjarnans, skrifar ágæta grein um efnahagsmál á vef Kjarnans í dag. Í greininni vísar hann til Peningamála Seðlabankans þar sem lýst er góðum gangi í efnahagslífinu þar sem hagsvöxtur er góður og vöxtur þjóðarútgjalda meiri en verið hefur í áratug. En Magnús er enginn kjáni. Hann bendir réttilega á að í miðri uppsveiflunni berist neyðaróp úr samfélaginu vegna skorts á peningum til rekstrar á grunnþáttunum. Það muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér ef ekki verður brugðist við. Magnús bendir einnig á að það verði að kafa undir yfirborðið til að átta sig á því hvað raunverulega er að gerast í efnahagsmálum landsins.
Skoðum aðeins stöðu ríkissjóðs.
Í Peningamálum Seðlabankans frá því í vor segir m.a. (bls. 34): „Ef tekjur af stöðugleikaframlögum eru undanskildar versnar afkoma ríkissjóðs á þessu ári samkvæmt grunnspá bankans en batnar hins vegar nokkuð á næstu tveimur árum.“ Þetta þýðir í stuttu máli að vegna minnkandi tekna fari staða ríkissjóðs versnandi á árinu.
Í Peningamálum Seðlabankans frá því um miðjan nóvember segir (bls. 14): „Halli á ríkissjóði nam tæpum 6 ma.kr. í fyrra eða sem nemur 0,3% af landsframleiðslu og samkvæmt grunnspá eru horfur á að hann verði heldur meiri í ár þegar horft er framhjá áhrifum uppgjörs slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja á afkomu ríkissjóðs.“ Þetta þýðir að það vantar 6 milljarða króna upp á að ríkið eigi fyrir rekstri vegna tapaðra tekna. Ríkissjóður er sem sagt rekinn með halla. Staða hans er verri en hún var árið 2013 þegar ríkisstjórn hægriflokkanna tók við. Tekjujöfnuður það árið var 0,7 milljarðar eins og sjá má í Ríkisreikningi fyrir það ár (bls. 5).
​Frekari skoðun á stöðu ríkissjóðs á undanförnum dögum hefur síðan leitt í ljós að staðan er í raun enn verri en þetta, svo ótrúlegt sem það kann að hljóma ofan í góðæris- og uppgangstalið.
Það er því ástæða fyrir því að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, bendir á að staða ríkissjóðs sé þrengri en talið var. Það er einfaldlega ekki til fyrir rekstrinum og þ.a.l. ekki innistæða fyrir auknum útgjöldum. Vilji stjórnmálamenn auka útgjöld til velferðar-, heilbrigðis- og menntamála eða til samöngumála eins og flestir segjast vilja gera verða þeir að afla til þess tekna.
Aukin útgjöld kalla á auknar tekjur.
Svo einfalt er nú það.