DAC stefnan í menntamálum

Nú er ekki víst að sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð (DAC- flokkarnir) nái saman um myndun ríkisstjórnar. Þeir virðast þó nokkuð sammála um áherslur í mörgum stórum málum. Skoðum t.d. menntamálin til að byrja með. Hverjar yrðu áherslur ríkisstjórnar sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í menntamálum? Um hvað eru þessir flokkar sammála í þessum mikilvæga málaflokki og hvað aðskilur þá frá öðrum flokkum?
Í stjórnmálaályktun sjálfstæðisflokksins frá því í september sl. segir m.a. um menntamál að fjölga eigi einkareknum skólum, stytta eigi námstímann, lögfesta LÍN- frumvarp Illuga Gunnarssonar og menntakerfið eigi að bregðast hratt við tækniþróun. Í samþykktri stefnu flokksins kemur jafnframt fram að bjóða skuli út rekstur leiks- og grunnskóla til einkaaðila.
Í ályktunum Viðreisnar segir m.a. að menntakerfið eigi að mæta þörfum atvinnulífsins hverju sinni og að nám eigi að fara fram þar sem atvinnulífið krefst þess hverju sinni. Viðreisn vill að námslánakerfinu verði beitt til að koma nemendum sem fyrst í gegnum skóla, líkt og sjálfstæðisflokkurinn vill með Illuga-frumvarpinu.
Björt framtíð hefur ekki samþykkta stefnu í menntamálum ef marka má heimasíðu flokksins. Þar má þó sjá að flokkurinn leggur áherslu á fjölbreytt rekstrarform í skólakerfinu, að brottfall sé sóun á hæfileikum, tíma og fé. Ólíkt hinum flokkunum vill Björt framtíð leggja áherslu á að mæta þörfum barna og áhugasviði ásamt því að námsánægja sé höfð að leiðarljósi og nemendur fái notið styrkleika sinna.
Heilt yfir eiga þessir þrír flokkar það sameiginlegt í menntamálum að vilja fjölga einkareknum skólum, stytta námstíma, menntun taki mið af þörfum atvinnulífsins hverju sinni og námslán miðist við hve hratt nemendur fari í gegnum námið.
Ekki lofar þetta nú góðu.