Erfið kjarabarátta

Sjómenn fara í verkfall 10. nóvember nema útgerðarmenn hafi samið við þá fyrir þann tíma. Sjómenn hafa verið samningslausir í nærri sex ár og fátt sem bendir til þess sem stendur að það sé að breytast, því miður. Útgerðarmenn eru harðsnúnir í samningum sem endranær. Þeir velja gjarnan til forystu fyrir sig fólk sem virðist færara um að keyra deilumál í harðan hnút í stað þess að finna leiðir til lausna á þeim.
Staða sjómanna er að mörgu leyti veikari nú en oft áður, ekki síst vegna þeirra viðhorfa til samfélagsins sem endurspeglast í orðum forystufólks útgerðarinnar. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig er fyrir sjómenn að reyna að semja um kaup og kjör við fólk með slíka afstöðu til samfélagsins. Það fer enginn í verkfall að gamni sínu. Stundum er bara engin önnur leið fær og þannig er það nú með sjómenn eftir nær sex ára þref við útgerðarmenn.
Ég stend með sjómönnum í kjarabaráttu þeirra.

Mynd: Forsíða Stundarinnar