Niðurskurður hjá Akureyrarbæ

Samkvæmt viðauka fyrir fjárhagsárið 2016 sem lagður var fram í bæjarráði Akureyrar fyrr í dag verður skorið niður í rekstri bæjarins um 317.731 milljón það sem eftir er árs (bls. 10). Þriðjungurinn af þeim niðurskurði mun lenda á fræðslu- og félagsþjónustu bæjarins. Niðurskurðurinn í fræðslumálum er að stórum hluta falinn í uppsögnum skólaliða en samkvæmt tillögunum munu 5 úr þeim hópi missa vinnuna. Það þarf vart að nefna það að um er að ræða starfsfólk bæjarins á lægstu launum. Dregið verður úr afleysingum á leikskólum og önnur almenn þjónusta skert (bls. 12).
Niðurskurður í félagsþjónustu bæjarins felst nánast eingöngu í að draga úr launakostnaði með því að lækka yfirvinnu og/eða uppsögnum (erfitt að átta sig á því) og að skerða þjónustu við íbúa (bls. 11).
Sama á við um æskulýðs- og íþróttamál. Skerða á þjónustu og lækka launakostnað, að öllum líkindum með því að fækka starfsfólki (bls. 14).
​Margar tillögur um niðurskurð og /eða tekjubreytingar í einstökum málaflokkum eru frekar óljósar og óútfærðar.
Það er ekkert launungarmál að mörg sveitarfélög standa illa fjárhagslega og þurfa að grípa til margvíslegra aðgerða í rekstri sínum. Ýmsar aðgerðir hægristjórnarinnar hafa ekki verið til að létta þeim róðurinn, auk þess sem samskipti ríkis og sveitarfélaga hafa ekki verið upp á sitt besta undanfarin þrjú ár.
Það er áhyggjuefni fyrir okkur Akureyringa að sjá þessar tillögur, ekki síst þegar haft er í huga að hér er aðeins um tillögur vegna yfirstandandi árs að ræða. Það leiðir af sjálfu sér að búast má við enn frekari aðgerðum á næsta ári og næstu árum. Það væri óskandi að bæjarstjórn Akureyrar ræddi málefni bæjarins opinskátt og eigi samtal við stjórnendur stofnana, starfsfólk og ekki síst bæjarbúa um fjárhagsmál bæjarins og hverju búast megi við á næstu árum. Slíkt samtal og samráð leiðir oft margt gott af sér ef vel er að því staðið. Það er meira en líklegt að með því megi bjarga störfum láglaunafólks og forða því að skólar bæjarins verði fyrir tjóni.
Er það ekki í það minnsta tilraunarinnar virði?