Meirihluti þingsins studdi ekki mál sem þó var samþykkt!

Fyrir nokkru var fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar samþykkt á Alþingi. Innan við helmingur þingmanna greiddi málinu atkvæði sitt. Í áætluninni felast ekki skuldbindingar um fjárútlát af hálfu Alþingis heldur fyrst og síðast sýn stjórnvalda á rekstur ríkisins í nánustu framtíð. Komandi þing og ríkisstjórnir eru því ekki skuldbundnar til að fylgja áætluninni og munu vonandi ekki gera það.
Í dag samþykkti Alþingi hins vegar skuldbindandi lög sem fela í sér miklar skuldbindingar um greiðslur úr ríkissjóði til margra ára. Innan við þriðjungur þingmanna greiddi lögunum atkvæði. Meirihluti þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni ýmist sat hjá eða lagðist gegn málinu. Nú skiptir það ekki öllu máli hvort lagasetningin var réttlætanleg eða ekki. Það alvarlega er að mikill minnihluti þingmanna stendur að baki lögunum. Meirihluti þingsins studdi þau ekki.
Það er grafalvarlegt að svo fáir þingmenn geti tekið svo stórar ákvarðanir sem þessar og samþykkt skuldbindandi fjárútlát úr ríkissjóði til margra ára. Þannig má það ekki vera.
Það hlýtur að þurfa að endurskoða þingsköp Alþingis með það í huga að a.m.k. einfaldur meirihluti þingmanna geti skuldbundið ríkissjóð með álíka hætti og gert var í dag.