Réttmæt sjónarmið hjá fjármálaráðherra um stöðu Eyglóar

Það eru fyllilega réttmæt sjónarmið sem Bjarni Benediktsson setur fram um stöðu ráðherra sem ekki styðja stefnumarkandi mál eigin ríkisstjórnar. Þeir eru einfaldlega ekki í liðinu. Samstarf tveggja flokka eða fleiri snýst um að ná fram sameiginlegum markmiðum sem lýst er í samstarfsyfirlýsingu þeirra við upphaf kjörtímabils. Sú yfirlýsing er málamiðlun þeirra á milli sem þingmenn viðkomandi flokka hafa sæst á og skuldbundið sig til að vinna eftir. Ríkisstjórnarsamstarf er teymisvinna, hópastarf fólks sem hefur það að markmiði að knýja fram stefnu ríkisstjórnar sem það hefur samþykkt að taka þátt í. Í slíku samstarfi þarf stundum að gera meira en gott þykir, t.d. að styðja einstök mál sem maður er ekkert endilega fyllilega sáttur við. Það er hluti af skuldbindingunni. Geri maður það ekki er maður ekki í liðinu, ekki síst fyrir ráðherra. Það ríkir enginn trúnaður við ríkisstjórnarborð þar sem einn eða fleiri ráðherrar styðja ekki meginmarkmið stjórnarinnar. Slík ríkisstjórn er fallin.
Auðvitað á Eygló Harðardóttir að segja af sér sem ráðherra. Ef ekki þá á forsætisráðherra auðvitað að víkja henni úr ríkisstjórn sinni. Að öðrum kosti er ríkisstjórn hægriflokkanna fallin og á að fara frá.
Nema hvað?