Píratar setja skilyrði

 Í grein á vefsvæði Hringbrautar er sagt frá því að Píratar muni setja tvenn skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku eftir næstu kosningar. Annars vegar að kosið verði um ESB (aðild eða umsókn?) og hins vegar að kosið verði um nýja stjórnarskrá. Í greininni er þetta talið vera til merkis um nýjung í íslenskum stjórnmálum og djarflega teflda skák hjá Pírötum.
Fyrir okkur sem munum lengra en til gærdagsins horfir þetta aðeins öðruvísi við.
Við myndun vinstristjórnarinnar vorið 2009 gerði Samfylkingin aðildarumsókn að ESB að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn. Bæði Vinstri græn og Samfylking lögðu síðan upp með mikið starf við mótun nýrrar stjórnarskrár enda höfðu báðir flokkarnir lagt mikla áherslu á það mál í aðdraganda kosninganna. Um þessi mál var m.a. fjallað í samstarfsyfirlýsingu flokkanna frá vorinu 2009. Báðir flokkarnir hafa síðan undirstrikað mikilvægi þess að ljúka báðum þessum málum með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég get því í fljótu bragði ekki séð að Píratar séu að ryðja nýja braut í stjórnmálum í þessum efnum frekar en t.d. með tillögum sínum um stjórn fiskveiða fyrr á árinu sem allar höfðu áður komið fram hjá öðrum flokkum.
Það vekur hins vegar athygli mína að ekki eru nefnd nein sérstök ríkisstjórnarskilyrði af hálfu Pírata um heilbrigðis-, mennta- eða velferðarmál, hvað þá umhverfis-, atvinnu- og skattamál svo dæmi séu nefnd.

Það kemur kannski síðar.