Ótrúleg afkoma hjá HB-Granda

HB-Grandi birti í dag uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2015. Afkoman er vægast sagt gríðarlega góð. Í stuttu máli voru tekjur fyrirtækisins á fyrstu þrem mánuðum ársins 53,3 milljónir evra eða rétt tæpir 8 milljarðar króna. Hreinn hagnaður á tímabilinu var 13,8 milljónir evra eða liðlega 2 milljarðar króna og EBITDA 21,4 milljón evra eða 3,2 milljarðar íslenskra króna. EDITDA sem hlutfall af tekjum á þessum fyrstu þrem mánuðum ársins er 40,1% sem er gríðarlega mikið og margfalt á við það sem gott þykir hjá flestum fyrirtækjum.
Til upprifjunar dyggum lesendum bvg.is er EBITDA hagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir.
Það vekur athygli að HB-Grandi birtir ekki í þessu uppgjöri sínu hvað það greiðir mikið í veiðigjöld eins og það hefur gert hingað til (skýring 7). Hvers vegna veit ég ekki.
Hvað sem öðru líður þá var afkoma HB-Granda á fyrstu þrem mánuðum ársins gríðarlega góð og ljóst að það stefnir í enn eitt metárið hjá stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum.