Svikamyllan

Seðlabanki Íslands tapaði 35 milljörðum á 80 milljarða láni til Kaupþings daginn sem neyðarlögin voru sett haustið 2008. Við vitum enn ekki hvers vegna lánið var veitt né hvert peningarnir fóru.
Stóra millifærslan er sambærilegt mál. Um er að ræða 80 milljarða sem greiða á úr ríkissjóði. Ólíkt láni Seðlabankans þá vitum við hvað verður um þá peninga. Það kemur fram í 8. og 11. grein laganna sem Alþingi samþykkti um málið. Þessar greinar eru í raun og veru kröfulisti í millifærsluna, nokkurs konar veðbókarvottorð sem verður að hreinsa upp við útgreiðslu á millifærslunni.
Samkvæmt þessum greinum er kröfuröðin þessi:
1. Greiða upp kröfur sem standa út af þegar fólk hefur misst húsin sín á nauðungarsölu.
2. Tímabundin greiðsluaðlögun endurgreidd.
3. Sértæk skuldaaðlögun greidd til baka.
4. 110% leiðin greidd til baka.
5. Nauðasamningar við lánastofnanir í gegnum umboðsmann skuldara.
6. Niðurfelling lána einstaklinga sem voru með tvær fasteignir greiddar til baka.
7. Sérstakar vaxtagreiðslur endurgreiddar.
8. Sérstakar vaxtabætur á lánsveð endurgreiddar.
9. Greiðslujöfnunarreikningur endurgreiddur að fullu.
10. Allar aðrar aðgerðir sem fólk hefur hugsanlega fengið en ekki eru taldar upp í lögunum samkvæmt lagafrumvarpi sem er til umræðu í þinginu núna.

Sem sagt: Fyrstu tíu veðkröfurnar eru frá fjármálafyrirtækjum, bönkum og lánastofnunum, þeim sem lánuðu fólki peninga til fasteignakaupa. Þessir aðilar fá allt sitt greitt upp í topp úr millifærslunni.
Á ellefta veðrétti er svo loksins komið að því sem kallað hefur verið „heimilin í landinu.“ Sem er langt því frá það sem talað var um fyrir kosningar.
Millifærslan er stærsta svikamylla sem sést hefur í samanlagðri þingsögu Íslands.