Hagstofan gefur út viðvörun.

Hagstofa Íslands hefur gefið út talnaefni um landsframleiðsluna á öðrum ársfjórðungi yfirstandandi árs. Þar er margt athyglisvert að finna, m.a. þetta:
1. Landsframleiðsla jókst mun minna á tímabilinu en aukning útgjalda.
Það þýðir m.a. að við eyðum meira en við öflum.
2.VLF jókst um 2,4% á öðrum fjórðungi ársins, miðað við sama tíma í fyrra, sem er 40% undir því sem gert hafði verið ráð fyrir. Hagvöxtur á fyrri hluta ársins var einungis 0,6% sem er vel undir spám.
Það þýðir m.a. að áætlanir sem byggðust á meiri hagvexti og VLF, t.d. fjárlög, munu ekki standast.
3. Einkaneysla og innflutningur er meiri en spáð var á meðan fjárfesting (sérstaklega í einkageiranum) og útflutningur er minni en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Það þýðir m.a. að við eyðum meiri gjaldeyri til að fjármagna einkaneyslu en við öflum með framleiðslu og útflutningi.

Í rauninni er Hagstofa Íslands að senda út viðvörun. Þetta er nefnilega ekki í fyrsta sinn sem það gerist að verðmætasköpun í landinu dugir engan veginn fyrir útgjöldum. Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem það gerist hér á landi að einkaneysla og sóun á gjaldeyri kemst á hættulegt stig. Síðast endaði þetta með Hruni.
Það versta sem stjórnvöld geta gert í slíkum aðstæðum er að auka neyslu og innflutning á kostnað verðmætasköpunar. En það er því miður nákvæmlega það sem snillingarnir í stjórnarflokkunum eru að gera með því að lækka skatta, slaka á fjármálum ríkisins og moka gríðarlegum upphæðum úr ríkissjóði inn á verðtryggð útlán fjármálastofnana sem þeir kalla „leiðréttingu.“ Allt hefur þetta verið gert áður eins og lesa má um í skýrslu RNA fyrir þá sem hafa áhuga á að læra af fortíðinni.
Á heimasíðu Arion banka er fjallað ágætlega um samantekt Hagstofunnar og jafnfram lýst yfir miklum áhyggjum með þessa þróun. Einhverra hluta vegna hefur samt ekki verið fjallað mikið (ef nokkuð) um þetta mál í fjölmiðlum. Það væri þó full ástæða til að gera það og spyrja spurninga sem ekki voru spurðar síðast þegar sambærileg staða var uppi.
Það er enda erfitt að keppa við fréttir af fullum framsóknarkonum og tilraunum  þingmanna til að hafa áhrif á dagskrá RÚV.