Aðför forsætisráðherra að réttarkerfinu

Af hverju er þingmönnum og ráðherrum stjórnarflokkanna svona uppsigað við Sérstakan saksóknara? Hvað veldur því að talsmenn ríkisstjórnarinnar nýta hvert tækifæri sem þeir fá til að grafa undan embættinu og tortryggja það á alla lund. Nýjasta dæmið er ótrúleg yfirlýsing forsætisráðherra um að hann muni láta fara fram sérstaka rannsókn á klögumáli manns gegn sérstökum saksóknara. Manns sem virðist hafa leikið tveim skjöldum sem fyrrverandi starfsmaður embættisins. Þó hefur málið farið sinn gang innan réttarkerfisins og ekki talinn grundvöllur til að halda því áfram. En það nægir ekki formanni framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Hann telur ríkissaksóknara hafa komist að rangri niðurstöðu. Því ætlar hann  að setja á fót sína eigin rannsókn sem á væntanlega að leiða til niðurstöðu sem er honum að skapi. Til að bíta svo höfuðið af skömminni hefur svo ein af nefndum þingsins ákveðið að kalla ríkissaksóknara á teppið út af sama máli. Hvað ætlar nefndin að gera? Leggja ríkissaksóknara lífsreglurnar? Hlutast til um málmeðferð eða málatilbúnað embættisins?

Framganga forsætisráðherra og þingliðs hans er aðför að dómskerfinu, grefur undan réttarkerfinu og færir okkur langt aftur til fortíðar. Ég efast um að nokkuð þessu líkt geti gerst í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ef við  þá berum okkur saman við aðra.
Það er ekki og má ekki vera hlutverk stjórnmálamanna að hafa afskipti af réttarkerfinu með þeim hætti sem forsætisráðherra  gerir.
Það verður að fá að hafa sinn gang án slíkra afskipta.