Ekki gert út á kærleikann einan saman

Flestir Íslendingar bera hlýjan hug til frænda okkar Færeyinga. Það hefur berlega komið í ljós á síðustu dögum vegna komu skipsins Nærabergs til hafnar vegna bilunar. Sjálfur þekki ég nokkra Færeyinga og á sem vinnufélaga að auki.
Í vetur var sagt frá því í fréttum að færeysk útgerð hafi hlunnfarið indónesíska sjómenn, borgað þeim laun langt undir viðmiðunarmörkum og svipt þá kjörum og réttindum á flesta vegu. Færeyskir fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um þessa útgerð, t.d. hér og sjómannasamtökin þar segja framkomu útgerðarinnar við starfsfólk sitt vera mannminnkandi. Fleiri sambærileg dæmi eru um framkomu færeyskra útgerða gagnvart erlendum áhöfnum sínum og freistni þeirra til að ganga eins langt og mögulegt er.
Færeyingar bjóða útgerðum upp á sérstaka skráningu sem gefur þeim möguleika á að sleppa við að borga skatta og að laga kjör sjómanna að því sem verst gerist. Það er t.d. á grundvelli þessara laga sem sum íslensk kaupskip eru skráð í Færeyjum en ekki á Íslandi. Víða er talað um Færeyjar eins og hvert annað hentifánaríki af þessum sökum.
Færeyskar útgerðir hafa því ekki gert út á kærleikann einan saman frekar en aðrir. Þetta er vert að hafa í huga þegar þeir óska eftir jafnri stöðu færeyskra fyrirtækja og íslenskra.
Við hvað og hverja viljum við jafna okkur?