Þau ljúga og ljúga og ljúga ...

Gunnar Bragi Sveinsson í þingræðu 12. september 2013:
„Jafnframt standa yfir viðræður við óháða háskólastofnun, nánar tiltekið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, um gerð þeirrar úttektar sem boðuð var. Hagfræðistofnun mun án efa leita fanga víða, innanlands sem utan, við vinnslu sinnar skýrslu. Sú úttekt verður svo tekin til umræðu hér í þinginu og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki er tímabært að velta fyrir sér framhaldi aðildarferilsins fyrr en skýrslan hefur verið gerð en málefnaleg og rökföst umræða mun án efa eiga sér stað innan þingsins um efni hennar og hlakka ég til þess.“

Það átti sem sagt að bíða eftir skýrslu HHÍ, kynna hana svo fyrir þjóðinni, taka hana síðan til málefnalegrar og rökfastrar umræðu áður en lengra yrði haldið. Og ráðherrann hlakkaði til.
En hvað gerðist svo?
Skýrslan var lögð fram á Alþingi síðari hluta dags 19. febrúar 2014. Umræða um hana fór fram dagana 19. og 20. febrúar sama ár. Degi síðar, 21. febrúar 2014 leggur utanríkisráðherra fram fullbúna þingsályktunartillögu á Alþingi um afturkall aðildarumsóknar Íslands að ESB.
Þeir sem til þekkja vita að þingsályktunartillaga sem þessi er ekki hrist fram úr erminni si svona. Hún þarfnast mikils undirbúnings og umræðu í ráðuneyti viðkomandi ráðherra og í ríkisstjórn, auk þess sem að vera rædd og afgreidd í þingflokkum stjórnarflokkanna. Það er því alveg kristaltært að þingsályktunartillagan var tilbúin löngu áður en skýrslan kom út.
Það þýðir því að ríkisstjórnin laug að þjóðinni. Það stóð aldrei annað til en að slíta viðræðunum, sama hvað hefði komið frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Það átti aldrei að taka málefnalega og rökfasta umræðu um málið.
Eina sem stenst af þessu er að ráðherrann hlakkaði til.