Þarf frekari vitna við?

Í frétt á vef Reuters í morgun er sagt frá þeim viðsnúningi sem orðið hefur á viðhorfi erlendra aðila til Íslands frá stjórnarskiptunum síðasta vor. Þar kemur fram að álag á skuldabréf íslenska ríkisins hafi hækkað um ríflega þriðjung frá kosningum og Ísland sé nánast í frosti á erlendum mörkuðum samanborið við önnur lönd. Þetta er mikil breyting á viðhorfi til Íslands frá því sem var undir lok síðasta kjörtímabils og ekki ásættanlegt fyrir okkur sem búum á þessu landi.
Árangurinn sem náðist á síðasta kjörtímabili er ekki aðeins í hættu heldur lítur út fyrir að hluti hans sé þegar farinn fyrir lítið.
Samkvæmt skilgreiningu Wikipedia er svokallað skuldatryggingarálag (CDS) álag ofan á grunnvexti skuldabréfs sem mælir hvað það kostar fyrir fjárfesta að kaupa vátryggingu gegn því að útgefandi skuldabréfsins geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Skuldatryggingarálag er sem sagt mælikvarði á markaðskjör sem bönkum bjóðast á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum.
Á fyrri myndinni hér að ofan má sjá þróunina í skuldatryggingarálaginu frá 2008 til loka síðasta kjörtímabils. Á hinni sést svo breytingin sem er orðin frá síðastliðnu vori til dagsins í dag.
Þarf frekari vitna við?