Er það glæpur að vinna hjá Samherja?

Guðmundur Hörður Guðmundsson skrifar pistil á vef DV um helgina undir fyrirsögninni „Samkrull stjórnmála og atvinnulífs.“ Hann tekur mig sem dæmi um slíkt óæskilegt samkrull vegna setu minnar í bankaráði Seðlabanka Íslands. Samkrullið við atvinnulífið er að ég hafi „í gegnum tíðina unnið hálaunastörf hjá fyrirtæki í eigu Samherja og geri enn.“ Þess vegna sé vera mín í bankaráði óeðlilegt samkrull stjórnmála og atvinnulífs enda hafi Seðlabankinn haft Samherja til rannsóknar og ég sem hálaunamaður hjá Samherja muni draga taum fyrirtækisins í bankaráðinu.
Ég hef aldrei verið á launaskrá hjá Samherja, hvorki „í gegnum tíðina“ hvað þá að ég „geri það enn.“ Starfsferil minn má sjá m.a. á heimasíðu Alþingis. Við hann má bæta að ég fór eina veiðiferð á skipi Síldarvinnslunnar  (sem er 45% í eigu Samherja) í afleysingum í sumar og fékk greitt fyrir það í samræmi við gildandi kjarasamninga eins og vera ber. Röksemdarfærsla Guðmundar Harðar fyrir samkrulli við atvinnulífið stenst því ekki skoðun í mínu tilviki.
Viðhorf Guðmundur Harðar til launafólks, eins og það birtist í þessum skrifum er umhugsunarvert. Í raun heldur hann því fram að launafólk hljóti alltaf að vera háð vinnuveitendum sínum og taki alltaf málstað þeirra, hver sem málstaðurinn er. Launamaður geti því aldrei verið frjáls heldur verði hann alltaf tekinn sem dæmi um óeðlilegt samkrull stjórnmála og atvinnulífs ef hann hættir sér í opinber störf. Nú veit ég ekki hvað margir vinna hjá Samherja en geri ráð fyrir  að þar starfi nokkur hundruð manns. Kannski hátt í þúsund? Samkvæmt Guðmundi Herði er allt það fólk háð Samherja og því ófært um að taka þátt í opinberum störfum. Hann dæmir það allt úr leik með pistli sínum. Ætli þetta eigi líka við um starfsfólks Nóatúns? Eða Kjarnafæðis? Eða Kjöríss? Eða Granda? Liggur allt launafólk undir grun um óeðlilegt samkrull stjórnmála og atvinnulífs ef það vogar sér inn á opinberan vettvang? Eða á þetta bara við um starfsfólk Samherja og fyrirtækja því tengdu? Þetta er ótrúlegt viðhorf sem ég er hjartanlega ósammála Guðmundi Herði um. 
Eins og fram hefur komið hef ég aldrei unnið hjá Samherja eða þegið laun hjá því fyrirtæki og ekki starfað hjá fyrirtækjum í eigu þess í gegnum tíðina né geri það enn. Samherji er hins vegar eftirsóttur vinnuveitandi. Það á líka við um Síldarvinnsluna. Það þykir gott að starfa hjá þessum fyrirtækjum og launin eru oft góð. Kannski á ég einn daginn eftir að taka laun hjá Samherja fyrir vinnuframlag mitt?
Enda væri það enginn glæpur.
Eða hvað?